Monday, August 11, 2008

Blogg blogg blogg og meira blogg...

Þegar ég skrifaði titilinn þá áttaði ég mig á því að ég er farin að syngja svo margt, flestar setningar sem ég segi, ég finn eitthvað lag með þeim. Birkir hefur gaman af því þannig að ég læt hugmyndina um að þetta sé merki um geðveilu sem vind um eyru þjóta.

Síðustu helgi var mikið gaman, mikið stuð. Við fórum á ættarmót hjá fjölskyldunni hans Helga. Það var haldið á Ólafsfirði og endaði svo á sunnudeginum með kaffiveislu í Höllinni (veitingastaður á Ól) í boði Hönnu gömlu sem var áttræð. Þarna voru flestir af nánustu ættingjum Helga mættir og margir hverjir að sjá prinsinn í fyrsta skipti þannig að þetta var heilmikill sýningartúr og auðvitað var fólk yfir sig hrifið af litla frændanum, enda ekki við öðru að búast.

Það er farið að dimma, mann langar bara að vera heima með kveikt á kertum á kvöldin og hafa það gott. Rútínan er farin að heilla mann, en ég held að það sé best að láta sig ekki hlakka of mikið til hennar heldur njóta þessara tveggja vikna sem eru eftir af sumrinu.

Wednesday, August 06, 2008

Sumarið er tíminn..

Já, ég er ekki frá því að þetta sumar sé það besta hingað til! Veðrið hefur svo sem ekkert verið til að hrópa húrra fyrir alla dagana í sumar, en við búum nú á Íslandi og ég er nú bara ánægð með þetta. Ég held að það sé nú ekki hægt að kvarta þar sem við fengum þetta frábæra veður á landsmóti skáta sem var haldið hérna rétt við bæjardyrnar og við familían skelltum okkur í útilegu, fyrstu útileguna hans Birkis. Við vorum í fjölskyldubúðum og það er ekki laust við að það hafi verið hörkustuð! Allavegana hefur það verið ákveðið að þetta verður endurtekið á næsta móti og líklega verður það heldur fjörugra þar sem það voru þrír grísir þarna fæddir 2008 og einn grís fæddur 2007 þannig að það verður stuð þegar þau verða þriggja og fjögurra ára. Svo verða nú kannski fleiri komin í hópinn.

En já, sumarið er bara búið að fara í að knúsast og kúrast og fara út að labba, voðalega notalegt. Ég segji það samt ekki að ég er nú alveg fegin að það er að koma haust, Helgi verður meira heima og ég fer að hafa meiri samskipti við fólk sem getur svarað mér:) Það eru kostir og gallar við haustið, ég fæ beyglurnar mínar aftur norður, en Una, Þórunn og Lilý fara. Það hefur alltaf verið leiðinlegt, en er enn leiðinlegra núna þegar þær missa af svo miklu hjá Birki. En það er bara eins gott að þær verði duglegar að koma norður;)

Ég er núna að læra á fullu, ákvað það í lok júlí að skella mér í eitt ágústpróf. Ásta Lilja er svo dugleg að hún fer út að labba með Birki 2 tíma á hverjum degi á meðan ég sekk mér ofan í glósurnar. Ef að þetta próf fer eins og ég vona þá þarf ég ekkert að sitja áfangann í vetur og létti þar með undir fyrir næstu önn. Það er líka kannski eins gott þar sem ég hef heyrt að hún sé svolítið strembin.

Ofnklukkan hringir og barnið kallar!

Tuesday, May 13, 2008

Lífið eftir barnsburð..

Jæja, ætli maður verði ekki að henda hér inn nokkrum línum um það hvernig lífið er að leika mann.
Seinni partinn 21. apríl fór ég að finna verki, ég áttaði mig á því að nú væri þetta að fara að byrja og pakkaði saman skóladótinu því ég sá ekki fram á að læra mikið meira fyrir prófin. Til að gera langa sögu stutta, kom sá stutti í heiminn 15:23, 22. apríl. Reyndar var hann ekkert svo stuttur, hann var 56cm og 4160gr takk fyrir pent. Fæðingin gekk vel og mænudeyfingin bjargaði lífi mínu. Þegar pjakkurinn var svo 6 daga fór ég í fyrsta prófið af 3. Þegar hann var svo tveggja vikna lauk þessu erfiða tímabili í lífi mínu, og ég gat farið að einbeita mér algjörlega að honum. Það var nú ljúft. Ég verð nú að segja að ég get ekki kvartað yfir litla snáðanum þar sem hann sefur bara og drekkur, eitthvað hefur maginn þó verið að angra hann núna síðustu dagana, en almennt er hann bara eins og hugur manns. þegar hann var 17 daga var hann búin að þyngjast um 650gr og ég segji bara geri aðrir betur, hann ætlar greinilega að verða stór og stæðilegur strákur:)
En ég ætla nú ekki að gera þetta að neinni barnalandssíðu, né heldur ætla ég að stofna eina slíka og því verður fólk bara að kíkja í heimsókn til okkar ef þeim langar að hitta kauða, við erum yfirleitt heima en ekki vitlaust að taka upp símann og hringja á undan sér.

Friday, April 11, 2008

11. apríl...

Mér finnst eins og ég hafi ætlað að gera eitthað í dag.

Monday, April 07, 2008

Alveg punkteruð!

Já, ég er sko alveg búin á því!
Ég hefði kannski átt að vera að læra í dag, en ákvað að gera það ekki, við sjáum til seinna hversu gáfuleg ákvörðun það var. Ég tók daginn snemma og fór í mæðraskoðun, voooonandi þá síðustu, og fór svo í klippingu og litun, ekki vil ég nú að barnið kynnist mömmu sinni ljótri;)
Þegar ég kom svo heim upp úr hádegi var mér alveg nóg boðið draslið hérna svo ég ákvað að vaska upp og gera aðeins heimilislegra hérna. Áður en ég vissi af var ég búin að vaska upp, þrífa ruslaskápinn, taka ísskápinn í gegn, henda öllu út úr forstofunni - þrífa og inn með allt aftur, taka til í blaðakörfunni, búa um og skúra inn í svefnherbergi, þurrka af í stofunni, þvo 3 vélar og hengja út og brjóta saman, þrífa baðherbergið og skúra alla íbúðina og klukkan orðin hálf sex. Þegar ég settist svo loksins niður var ég sveitt og þreytt. Ég er alveg úrvinda núna. Ef að þetta kemur þessu barni ekki út, hvað gerir það þá?

Wednesday, March 19, 2008

Ahhhh...

Verknámið er búið, enn hvað það er gott! Ég þarf bara að mæta á einn umræðufund núna á eftir og klára annað verkefnið sem fylgir og þá er þetta búið. Ekki það að það muni taka neitt sérstaklega rólegir tímar við. Nú er eins gott að fara að láta hendur standa fram úr ermum og fara að hella sér í námsefnið ef ég ætla að ná þessum blessuðu prófum í vor. Ég ætlaði að vera voðalega dugleg í verknáminu, ég segji svo sem ekki að ég hafi ekki verið dugleg, en þau skipti sem ég hafði einhverja orku eftir daginn var ég að gera verkefni sem tengdust verknáminu. En nú er ég komin í páskafrí og ætti að hafa nægan tíma til að læra, ég er nánast í fríi til 8. apríl, þarf að mæta í skólann 31. mars og svo ekkert aftur fyrr en 8.
Ég nenni ekki að blogga um kreppuna sem allir tala um, ætla bara að segja Guði sé lof að við tókum ekki lán í erlendri mynt eins og við vorum að hugsa um! Þetta er rosalegt.
Jæja, ég ætla að reyna að sóa ekki þessum degi í eitthvað rugl, ég er ekki viss um að ég verði voðalega ánægð ef ég byrja þessa prófatíð í vor vitandi jafn lítið og ég hef oft áður vitað í upphafi prófa.

Tuesday, March 04, 2008

Ég fór í búð í gær. Verslaði bara þetta helsta, var komin með vel í körfuna þegar ég fór að kassanum og hugðist borga. Þetta gekk allt sinn vanagang og ég týndi vörurnar á færibandið og borgaði svo, en þótti þetta svo frekar dýrt miðað við það sem ég keypti. Þegar ég kom heim fór ég að skoða kvittunina og sá þá að harðfiskurinn sem ég hafði hent í körfuna í mesta sakleysi mínu kostaði 2500 krónur! Hvernig má það vera, það er bara fjárfesting að kaupa harðfisk... úff, ég tími varla að borða hann!

Æ, tók mér svo langa bloggpásu þegar ég fór í slúðursímtal við Þórunni að ég datt úr öllum gír...